149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var áhugavert. Auðvitað er stórmerkilegt og í rauninni undarlegt að í svona stóru, áhrifaríku og umdeildu máli skuli menn ekki vinna meiri undirbúningsvinnu en raun ber vitni og að ekki séu teknar neinar sviðsmyndir. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að kasta fram þeirri kenningu, og þætti fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður geti tekið undir hana, að áhrifin af þessu öllu saman séu nokkuð fyrirsjáanleg. Í fyrsta lagi vegna þess að við vitum hvert Evrópusambandið stefnir með þessum þriðja orkupakka, í öðru lagi vegna þess að það heldur áfram á sömu braut þó að það þurfi að hliðra til einhverju regluverki. Það ýtir smátt og smátt hlutunum áfram í þá átt sem embættismannaveldið í Brussel vill sjá hlutina færast og svo höfum við séð svo ótal mörg dæmi um það, og ekki bara hjá Evrópusambandinu, heldur almennt nú til dags hvernig kerfið ýtir verkefnum sínum áfram og vinnur áfram að sinni niðurstöðu, algjörlega óháð því hvað kemur upp í millitíðinni. Stundum verða einhverjar tafir, stundum verða kannski dómsmál, en hvað sem öllu slíku líður heldur gangverk kerfisins áfram að snúast í eina átt.

Við getum nefnt fjölmörg íslensk dæmi, Landspítalann við Hringbraut, ég held að allir séu meira og minna búnir að átta sig á að þetta sé tóm vitleysa, en kerfið var bara búið að ákveða að það ætti að þróast í þessa átt og þá gerir það það. Annað dæmi er flugvöllurinn og hvernig þróunin er með hann.

Með öðrum orðum, svo ég taki þetta saman í eina spurningu, herra forseti: Getum við ekki alveg gefið okkur (Forseti hringir.) í hvað stefnir ef við samþykkjum þriðja orkupakkann?