149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði einmitt hugsað mér að spyrja hv. þingmann út í atriði sem hann nefndi síðast, því að nú eru púslin að detta inn eitt af öðru og okkur er að takast að raða þeim saman að einhverju leyti. Ég hef talið að það myndi hjálpa ef stuðningsmenn málsins mættu til leiks til að skýra afstöðu sína en það er ekkert víst, það gæti bara verið til þess fallið að rugla myndina, a.m.k. ef heimsókn hæstv. utanríkisráðherra gefur einhverjar vísbendingar um hvers væri að vænta.

En í ljósi þess að við erum að púsla þessu öllu saman og það hefur heilmargt bæst við frá því að ég ræddi síðast um samhengið milli hins svokallaða kjötmáls og orkupakkans þá langar mig að spyrja hv. þingmann út í þann samanburð sem hann kom aðeins inn á í lokin, kannski ekki út frá efnahagslegum stærðum, sem hv. þingmaðurinn er þegar búinn að geta um, heldur í lagalega samhenginu.

Nú var fullyrt í kjötmálinu að við hefðum undanþágu, formlega undanþágu, sem tryggði að við þyrftum ekki að flytja inn ófryst, hrátt kjöt og ógerilsneydd matvæli af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að landbúnaðar- og sjávarútvegsmál heyrðu ekki undir EES-samninginn en einnig vegna þess að þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir hina hreinu, heilnæmu íslensku framleiðslu og hefur sitthvað annað verið tínt til.

Þrátt fyrir að menn teldu sig hafa þann skýra fyrirvara, og ekki bara fyrirvara heldur undanþágu, fellur dómur með þessum hætti og ríkisstjórnin mætir hingað og segir: Við verðum bara að gera eins og þeir segja.

Hvernig metur hv. þingmaður samanburðinn á annars vegar lagalegu stöðunni (Forseti hringir.) í kjötmálinu og svo hins vegar því sem við horfum upp á að stefni í með orkupakkann?