149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:00]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í þessari ræðu að vitna í Sigurð Oddsson verkfræðing en hann segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 16. maí sl., með leyfi forseta:

„Umræðan um þriðja orkupakkann minnir á Steingrím, sem samdi við Jóhönnu og Samfylkinguna um inngöngu í ESB. Já, og það þrátt fyrir öll loforðin um að VG myndi aldrei samþykkja inngöngu í ESB.“

Í þetta sinn virðast ríkisstjórnarflokkarnir allir hafa samið þvers og kruss á einhvern óskiljanlegan hátt, þvert á sínar eigin stefnur og þvert gegn vilja þjóðarinnar. Í einhverju bríaríi hafa þingmenn ríkisstjórnarflokkanna talið sjálfum sér trú um að málið sem hefur verið til umræðu í allnokkra daga sé vel úr garði gert. Ekki veit ég hvað veldur en það þarf að hafa mikla sannfæringu þegar stjórnarskráin, fullveldið og þjóðarhagsmunir eru í húfi, sannfæringu eða heilaþvott Evrópusambandssinna og embættismanna sem eiga sér þann helsta draum að við seljum okkur undir yfirþjóðlegt vald. Gerist það ekki í hvelli skal það gerast smám saman.

Og spurningin er: Hvernig borðar maður fíl? Jú, maður tekur bara einn bita í einu. Sjálfsagt hefur sá sem hér stendur borðað marga fíla í kílóum talið en ekki gert sér neinn magaverk úr því af því að einn biti hefur bara verið tekinn í einu og sér ekki á manni. Ég leyfi mér að vitna aftur í sömu grein, með leyfi forseta:

„Þeir sem hafna þriðja orkupakkanum eru þeirrar skoðunar að með samþykkt hans afsölum við okkur yfirráðum á orkuauðlindinni án þess að fá nokkuð í staðinn. Í dag getum við t.d. óskað eftir tilboðum í græna orku gegn því að kaupandi reisi verksmiðjuna hér á landi og sett sem skilyrði að taka hvaða tilboði sem er og að 1) umhverfisvernd og 2) verðið fyrir orkuna hafi mest vægi. Við getum óskað eftir tilboði hvaðan sem er í heiminum og ekki bara frá ESB-löndum, eins og verður með samþykkt pakkans.

Samþykkjum við þriðja pakkann fer orkan úr landi til uppbyggingar fyrirtækja sem við vildum gjarnan fá til okkar. Virðisauki framleiðslunnar verður á meginlandinu og ekki hjá okkur. Í staðinn munum við áfram fá mengandi stóriðju, sem fá lönd vilja fá til sín. Landsvirkjun mun geta selt umframorku og fengið hærra verð þegar stóriðjusamningarnir renna út. Á móti kemur að orkuverð til heimila og fyrirtækja mun hækka mikið.

Þeir sem vilja samþykkja þriðja orkupakkann segja hann ekki skipta neinu máli. Hvorki fyrir okkur né EES. Hvers vegna er þá verið að samþykkja hann? Hvað fengum við með fyrsta og öðrum orkupakkanum annað en aukinn kostnað um leið og grunnur var lagður að sölu um sæstreng?

Þeir segja líka enga hættu á að sæstrengur verði lagður. Það stangast á við smávirkjanaæðið og kaup erlendra aðila á hlutabréfum í orkuvirkjunum. Þessir aðilar myndu ekki fjárfesta svona ef þeir væru ekki vissir um að sæstrengur yrði lagður. Aukinn þrýstingur mun koma frá þeim um leið og þriðji orkupakkinn verður samþykktur. Svo koma fjórði og fimmti orkupakkinn með kröfu um að rífa niður þjóðareignina Landsvirkjun.

Forsætisráðherra tekur undir að í þriðja orkupakkanum felist engin áhætta á lagningu sæstrengs, því að í samningnum sé fyrirvari um samþykki Alþingis. Er forsvaranlegt að taka sénsinn á að leika sér með fjöregg þjóðarinnar í trausti þess að Alþingi verji fullveldið?“

Ég spyr.