149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég minntist á það fyrr í dag, eða í kvöld réttara sagt, að það hefur ekki fengið mikla umfjöllun í þinginu, ég man ekki eftir að hafa séð sérstaklega fjallað um það í áliti meiri hluta, reyndar í nefndarálitum, eða þá í þeirri umfjöllun sem ég hef séð frá nefndum. Þannig er það að í minnisblaði frá atvinnuvegaráðuneytinu, skrifstofu orkuiðnaðar, 2014 kemur fram að þegar Noregur óskar eftir því að fá undanþágu frá tilskipun 72/2009, sem fjallar um sameiginlegar reglur á þessum markaði, er svar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þannig að því er hafnað, vegna þess að tilskipunin gildi um starfsemi í sérefnahagslögsögunni og á landgrunni aðildarríkjanna.

Þá fer maður að hugsa: Bíddu, er þingmönnum almennt kunnugt um að sú tilskipun sem á að samþykkja hafi svona mikið gildi og svona mikið vægi? Er það öllum ljóst?

Það hefur heyrst hér að það sé galið eða vitlaust að halda fram að landgrunnið geti verið undir og eitthvað þess háttar þegar við höfum áhyggjur af sæstreng, að við hljótum að geta bannað það. En í ljósi fréttanna í dag og því sem skrifað hefur verið á Facebook, m.a. af héraðsdómara, spyr ég hv. þingmann: Undirstrikar þetta ekki áhættuna sem menn eru að taka varðandi málsóknir einkaaðila?