149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Hann ræddi áfram um djúpboranir og nefndi þessa dýpt, allt að 4,7 km.

En þá dettur mér í hug að þegar menn eru komnir svona djúpt ofan í jarðskorpuna opnast enn frekari möguleikar, ekki bara á Reykjanesinu eða þar sem grunnt er niður á hita eins og víðast er hér á Íslandi, að víða erlendis opnast þá líklega möguleikar og jafnvel í Evrópu, ég hef ekki kannað það hversu djúpt er niður á varma sem einhverju skiptir í löndum Evrópu þar sem mestu möguleikarnir eru kannski, en þessar rannsóknir opna auðvitað möguleika á að mannkynið finni þar orkuauðlind sem verður auðveldara með aukinni tækni að leita í og beisla til hagsbóta fyrir þjóðfélög nútímans og geta þá í leiðinni losað sig við þá sóðalegu orku sem við erum að nýta í allt of miklum mæli, eins og kjarnorku og brennslu olíu og kola.

Ég fagna því ef rannsóknir á djúpborunum bera einhvern árangur. En ég er ekki að segja að þetta sé eitthvað sem við eigum að hlaupa til hér á landi. Mér sýnist möguleikar á orkuöflun næstum óþrjótandi, eins og ég nefndi áðan, með vindorkuna og jarðvarmann, bara eins og hann kemur fyrir, og sjávarfallaorku o.s.frv. Ég held að við höfum ekki neina þörf fyrir að taka neina áhættu í þessu sambandi, herra forseti.