149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar hneykslumst mjög á ferðalöngum sem fara af stað á vanbúnum ökutækjum upp til heiða og taka ekki mark á lokunarskiltum, fara sem sagt vanbúnir, fara út af í fyrstu beygju eða ef þeir eru „heppnir“ komast þeir afleiðis inn á hálendi og eru þar pikkfastir. Við segjum: Þetta eru nú meiri asnarnir, þessir ferðalangar sem hafa anað út í þetta þrátt fyrir öll varnaðarskiltin sem þeir sáu, keyra fram hjá lokunarskiltinu o.s.frv.

Ég sé ekki betur en að ríkisstjórnarmeirihlutinn sé akkúrat að vinna það mál sem við tölum um núna með þeim hætti. Nú eru tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í salnum og ég hlýt að spyrja: Voru mönnum kynntar þær umsagnir sem við höfum farið yfir hér? Vita menn af umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings? Vita menn hvaða varhuga Jón Baldvin Hannibalsson galt við þessum samningi í umsögn sinni?

Við þurfum eiginlega að vita það vegna þess að ef allar þessar umsagnir hafa verið kynntar þingflokki Sjálfstæðisflokksins, öll þessi varnaðarorð kynnt þingflokki Sjálfstæðisflokksins og hann segir samt: Kýlum á þetta, keyrum málið í gegn, tökum þetta í gegnum ríkisstjórn, gegnum þingflokkinn, komum þessu inn í þingið, komum þessu í gegnum þingið á sem skemmstum tíma og tökum þetta upp í íslensk lög — ef þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur fengið allar þær upplýsingar sem hér hafa komið fram í umsögn eftir umsögn verð ég að viðurkenna að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, sem ég hélt að væri íhaldssamur, varkár og sæi fótum sínum forráð, hefur sýnt vítavert gáleysi í meðferð þessa máls.