149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Já, það er vissulega áhyggjuefni hvernig þróunin virðist vera og erfitt að átta sig á því hvert markmið fyrirtækisins Landsvirkjunar er með svo háu orkuverði sem er augljóslega farið að pirra eða jafnvel að grafa undan starfsemi þessa stórfyrirtækis hér á landi. Það er ágætt að velta því fyrir sér hvort frekari breytingar á hinum sameiginlega orkumarkaði Evrópu kunni að leiða til þess að orkuverð hækki enn meira, ef það er yfirlýst stefna Landsvirkjunar að viðmiðunarverðið sé eitthvert verð, ég kann ekki alveg hvað þetta heitir allt saman þar sem þeir sækja viðmiðanir sínar, en ef það heldur áfram að hækka, hvort það muni þá leiða til frekari hækkunar hjá þeim fyrirtækjum sem hv. þingmaður minnist á. Það er kannski meginspurningin hvort reynslan kenni okkur að þetta sé snjóbolti sem stækkar og stækkar út frá því.

Það er eitt sem mig langar að skjóta að hv. þingmanni. Nú er ljóst að fyrirvarinn sem var settur á eða virðist vera einhvers staðar á sveimi — eða fyrirvararnir — eru ekki til þess fallnir að tryggja íslenska ríkið eða Orkustofnun fyrir málsókn af hálfu einkaaðila. Er þá ekki nauðsynlegt fyrir okkur að leita leiða til þess, ef fyrirvarinn á að halda, að gera hann þannig (Forseti hringir.) að hann haldi líka gagnvart þeim aðilum?