149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sem erfitt um að segja hver meiningin hafi verið í þessu hjá ráðuneytinu þann 1. apríl, en ég hef fengið þær upplýsingar að í utanríkismálanefnd hafi verið lagt fram minnisblað sem tók á því. En það vekur aftur athygli á því, ef þessi sérstaða var áréttuð með bókun í sameiginlegu EES-nefndinni, hvers vegna í veröldinni enginn þingmanna ríkisstjórnarflokkanna eða í utanríkismálanefnd virðist hafa tilgreint þetta sem hluta af þeim fyrirvararamma sem notast verði við í málinu. Þykir manni allt benda til þess að það sé vegna þess að þingmennirnir séu ekki upplýstir um með forsvaranlegum hætti hvar fyrirvarann er að finna og þar fram eftir götunum.

Ég ætla að taka mér tíma í að skoða þá yfirlýsingu sem var lögð fram til að byrja með í trúnaði en virðist síðan hafa verið gerð opinber en hefur hvergi, held ég, verið nefnd hér í öllum umræðum um þetta mál, þann tíma sem þær hafa staðið, sem í rauninni undirstrikar áfram hversu lítt grunduð umræðan um fyrirvarana er. Þetta virðist ekki vera í þeim gögnum sem liggja frammi með málinu, en ég á eftir að skoða betur hvort það hafi verið sýnt í utanríkismálanefnd.