149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna, burt séð frá því hvað felst í þessari yfirlýsingu sem var þarna birt eða þessa bókun sem þar var vísað í. Ég held að það tengist yfirlýsingu sem var á sínum tíma send utanríkismálanefnd í trúnaði og svo birt daginn eftir. Ég man það þó ekki alveg. Þetta blandast allt saman.

En burt séð frá því stöndum við frammi fyrir því að við höfum vitneskju, ja, ekki vitneskju, segja má að ný sannindi séu komin fram í þessu máli eða ný gögn sem eru kannski í fyrsta lagi að þessi fjórði orkupakki sem við köllum svo er kominn í ljós. Ítrekað er að fyrirvarinn sem okkur er réttur hefur ekkert gildi eða heldur ekki gagnvart t.d. einkaaðilum sem vilja gera þetta upp á sitt einsdæmi, leggja sæstreng, svo dæmi sé tekið, eða þarf að semja við. Við vitum líka að þetta sæstrengsverkefni í Bretlandi er á fullri ferð, þ.e. áhugi manna þar.

Því er eðlilegt að spyrja og þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að skoða þessa heildarmynd sem við höfum fyrir framan okkur og við höfum ekki fengið nein svör við, þ.e. hver heildaráhrifin verða þegar við erum búin, þ.e. ef við innleiðum orkupakka þrjú og fjögur saman, t.d. varðandi stjórnskipuleg álitaefni. Bara það eitt ætti að vera nóg til þess að við sammælumst um það, þingmenn, að rannsaka málið betur. Ekki hraða því eins og virðist vera vilji til.