149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég velti fyrir mér hvers vegna ekki sé verið að afla þessara upplýsinga og fara í þessar nauðsynlegu greiningar. Það er í mínum huga ráðgáta. Að mínu mati er verið að keyra þetta mál í gegn án fullnægjandi umræðu, án þess að fyrir liggi fullnægjandi rannsóknir á áhrifum málsins. Sá grunur læðist að manni í þessum efnum að hér sé um utanaðkomandi þrýsting að ræða, þá væntanlega frá Noregi, um að þeir sem eru fylgjandi þessari tilskipun í Noregi leggi ríka áherslu á að þetta verði samþykkt. Kannski hafa þeir bara litið svo á í gegnum árin að það væri bara formsatriði að samþykkt kæmi frá Íslandi.

Það er mjög áhugavert í áliti frá Carl Baudenbacher, þeim sérfræðingi sem utanríkisráðuneytið réð til starfa sérstaklega til að veita álit sitt á þessu máli og í tengslum við EES-samninginn í þeim efnum, að hann setur fram mjög sérstakar pólitískar skýringar og álitsgerð um að við séum nokkurs konar fylgifiskar Noregs, að við vegum lítið í þessum samningi, séum fyrst og fremst formsatriði hvað það varðar að innleiða hluti til þess að þóknast Norðmönnum. Það þykir mér mjög (Forseti hringir.) einkennilegur málflutningur, herra forseti, og er alveg þess virði að ræða það nánar hér.