149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:27]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða ræðu og hugleiðingar. Hann fjallaði m.a. um einstaklinga sem hafa stigið fram og lýst sig andvíga innleiðingu þriðja orkupakkans og að þeir hafi hreinlega verið úthrópaðir eftir það.

Ég rakst á grein sem birtist í Viljanum þar sem stjórnarmaður í VG styður ekki innleiðingu þriðja orkupakkans og mér finnst þessi stjórnarmaður, Bjarni Jónsson, svo að ég hafi nafnið með, býsna raunsær á staðreyndir máls. Hann byrjar á að fjalla um að stjórnvöld eigi eftir að útskýra betur hvað þau meini með þeim fyrirvörum sem þau hafa nefnt. Hann veltir fyrir sér hvort framtíðin muni vera þannig að virkja þurfi hvern einasta foss og jarðhitasvæði og raska verðmætum og veltir því upp hvort það sé í rauninni stefna Vinstri grænna í þeim málum sem oft hefur verið talinn umhverfissinnaður flokkur og hefur staðið vörð um auðlindir landsins. Ég skil áhyggjur hans og þarna er kannski komin fram rödd grasrótarinnar, a.m.k. í baklandi Vinstri grænna, sem þingflokkur Vinstri grænna mætti jafnvel taka mark á. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvað honum finnst um þetta, hvort hann meti það þannig að þarna sé komin rödd hins venjulega vinstri græns liða, VG-liða, ég vil orða það þannig, eða hvað sé þarna í gangi.