149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þannig, hv. þingmaður, að hér er ekki verið að gera hlutina rétt og af því munum við súpa seyðið inn í framtíðina verði ekki breyting þar á. Það er út af fyrir sig merkilegt að hafi menn rífan þingmeirihluta að baki sér finnist þeim þeir ekki þurfa að hlusta á ráðleggingar. Þá er ég ekki að tala um ráðleggingar frá andstæðingum þeirra í málinu heldur frá hæfustu og færustu sérfræðingum sem landið á til. Slíku fólki er ekki hægt að hjálpa, sem ekki tekur leiðsögn færustu manna í málum eins og þessum en tekur hins vegar heimskra manna ráð. Eins og við vitum eru þau verri eftir því sem fleiri koma saman.

Það er næsta víst að verði þetta mál samþykkt, svo búið sem það er nú og óbreytt, mun það hafa óendurkræfar afleiðingar í för með sér. Mig langar að biðja hv. þingmann um að fara með okkur yfir hvað hún sér fyrir sér að gerast muni ef þetta verður samþykkt með þeim hætti sem útlit er fyrir að verði.

Hvað þýðir þetta fyrir afkomu þjóðarinnar? Hvað þýðir þetta fyrir þá sem erfa munu land? Hvað þýðir þetta fyrir yfirráð Íslendinga yfir orkuauðlindum sínum? Mun þetta þýða það að útlendingar munu koma hingað og gefa okkur langt nef og fara sínu fram eftir því sem vilji þeirra stendur til?