149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir ágæta framsögu. Ég ætlaði eiginlega að gera gott betur sem nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd og þakka þingmanninum kærlega fyrir vel unnin störf við vinnu þessa máls í nefndinni. Eins og þingmaðurinn kom inn á í yfirferð sinni var víða komið við, víða drepið niður og gerðar ýmsar breytingar til bóta.

Mig langar að eiga orðastað við þingmanninn varðandi hlut sem hefur verið komið inn á. Það er rétt að við í nefndinni vorum að kljást við mörg mál sem lúta að ferðamönnum. Földi ferðamanna hefur gert það að verkum að umferðarmál okkar er gjörólík því sem áður var vegna álags og umferðar og öryggis- og umhverfismála og hver veit hvað. Hv. þingmaður kom einnig inn á mikilvæg málefni í nýsköpun sem tengjast ferðaþjónustu.

Hv. þingmaður kom áðan inn á tjónabíla og þótt þeir að hluta til tengist ekki ferðaþjónustu er það engu að síður svo að gríðarlegur fjöldi bílaleigubíla er í umferð. Auk þess hafa borist fréttir um að menn spili ekki alveg að innan marka þar með ýmislegt.

Mig langar að velta því upp og fá að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvort við hefðum mögulega getað gengið lengra í nefndinni en að beina tilmælum til ráðuneytisins um að taka upp reglugerð til endurskoðunar og gera breytingar, hvort við hefðum mögulega getað verið svolítið meira afgerandi í þessu máli sem við finnum að brennur mjög mikið á fólki, þ.e. öryggismálin, bæði hvað varðar umferðina sjálfa og hins vegar þessa bíla. Þetta brennur mjög mikið á fólki almennt. Ég held að ég láti þetta duga í fyrri umferð en ég er með annað sem mig langar að fá að heyra skoðun hv. þingmanns á í seinni umferð.