149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem mig langar að beina að hv. þingmanni í þessari umferð. Annars vegar eru það létt bifhjól í flokki I og það hvernig nefndin telur rétt með hliðsjón af umferðaröryggi að gert sé ráð fyrir skoðun líkt og í gildandi lögum, sem þó er ekki farið eftir, og beina því til ráðherra að reglur um skoðun slíkra ökutækja taki mið af eðli þeirra og notkun og gangi ekki lengra en þörf sé á. Þetta er eitthvað sem ég vil biðja hv. flutningsmann nefndarálitsins að taka í sérstakri ræðu seinna í umræðunni. Það var ekki alveg nógu skýrt farið yfir það í flutningsræðunni hvernig þetta virkar eiginlega með léttu bifhjólin í flokki I. Þetta var tiltölulega mikið rætt í nefndinni og það er smá misskilningur uppi, heyri ég, um að það sé hjálmaskylda á þeim af því þau taka líka til bifhjóla. Það er aðgreining á milli bifhjóla og léttra bifhjóla og svo á flokki I og II, skráningarskyldu og hvernig það virkar þá á rafhjól sem eru á undir 25 km hraða en mega fara yfir 25 km hraða ef hjólið er fótstigið o.s.frv. Það er fullt af svona atriðum sem valda smá ruglingi og sem komu ekki nægilega vel fram í kynningu nefndarálitsins. Ég kalla eftir nánari umræðu um nákvæmlega það.

Hitt er varðandi hjálmaskylduna. Landssamtök hjólreiðamanna komu fyrir nefndina og skiluðu norskri skýrslu um hjálmaskyldu til nefndarinnar. Þó er nefnt að ekki séu til afgerandi rannsóknir sem taki af allan vafa um slíka skyldu, hvort hún dragi úr hjólreiðum eða hvað. En vísbendingin er vissulega til staðar. Það að hafa skylduna upp að 18 ára aldri var eitthvað sem nefndin kom inn þegar við sáum breytingartillögurnar við frumvarpið. Það var ekki rætt sérstaklega í nefndinni á undan heldur aðeins í tengslum (Forseti hringir.) við umsögn Landssambands hjólreiðamanna. Þeir fluttu þó nokkuð góð rök (Forseti hringir.) fyrir máli sínu. Ég velti fyrir mér hvað varð af þeim.