149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. flutningsmaður sagði um hjálmanotkunina að allir hefðu verið sammála um að hjálmar væru nauðsynlegir og að allir ættu að nota þá, hvort sem það væri skylda eða ekki. Það var einmitt ekki það sem Landssamband hjólreiðamanna sagði. Þeir vildu að sjálfsögðu að allir væru með hjálm en töldu að ef það væri skylda væri það hindrun þegar kæmi að hjólreiðanotkun og hefði jafnvel fælandi áhrif almennt séð. Umræðan eftir þann fund gaf ekki til kynna að skyldan yrði hækkuð upp í 18 ár. Jú, það var talað um grunnskólaárin og að erfitt væri fyrir yngri krakkana að sjá allt í einu 10. bekkinn hætta að nota hjólreiðahjálm, en það var ekkert sem benti til þess að þetta færi alveg upp í 18 ár fyrr en breytingartillögur komu fram. Það kom mér dálítið á óvart þegar það datt inn og (Forseti hringir.) ég myndi vilja athugasemdir og umræður um það.