149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleymdi að koma inn á eitt áðan en svo heppilega vildi til að hv. þingmaður talaði líka um sömu málin, en ég ætla að bæta aðeins í umræðuna. Það er hjálmaskyldan og hækkun á aldri úr 15 í 18 ára. Það kom einmitt fram í umræðum nefndarinnar hvað það þýðir í raun og veru þegar allt kemur til alls. Hvað gerir lögreglan við þessi lög og þessa skyldu? Það eina sem gerist er að lögreglan stoppar viðkomandi hjólreiðamann ef hún telur hann vera 18 ára eða yngri og lætur forráðamenn vita. Það er í rauninni allt sem gerist. Við erum að leggja það aukalega á lögregluna að hjálpa til með uppeldi krakkanna milli 15–18 ára, sem ég veit ekki hvort sé voðalega skilvirkt, að beita lögreglunni sem einhvers konar uppeldistæki ef foreldrar geta það ekki.

Það hafa orðið mjög miklar framfarir í hjálmanotkun. Vissulega hefur líka verið bent á ákveðið vandamál þegar kemur upp í 10. bekk sem fyrirmynd, að 10. bekkingar hætta bara að nota hjálmana. En að siga lögreglunni á þá þannig að hún geti látið forráðamenn vita þegar þeir nota ekki hjálma, ég veit ekki hvort það kemur til með að skila þeim árangri sem ætlast er til þegar allt kemur til alls.

Mig langar annars að taka undir orð hv. þingmanns um hvernig þetta gæti ekki alveg virkað, þ.e. að bann að vera ekki með hjálm skili ekki þeim árangri sem til er ætlast. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar.