149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[18:47]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni ræðuna. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til að tryggja réttindi fatlaðs fólks, eins og segir í greinargerð. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 13. desember 2006 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er samningurinn alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til að tryggja mannréttindi.

Það er rétt, eins og fram kemur í greinargerð, að fatlað fólk er sá hópur sem talinn er fjölmennasti minnihlutahópur heims og er áætlað að um 650–800 milljónir manna séu með einhvers konar fötlun. Fatlað fólk er hins vegar mjög margbreytilegur hópur og ég tek undir að það er mjög mikilvægt að hafa það í huga þegar unnið er að réttindamálum fatlaðs fólks. Ég tek hjartanlega undir að mikilvægustu skilaboð samningsins eru að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að þeir eigi að fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis til jafns við aðra.

Til að svo megi verða er í samningnum lögð sérstök áhersla á tækifæri fatlaðs fólks til fullrar þátttöku á öllum sviðum mannlífs og samfélags og spjótum beint að venjum og siðum, staðlaðri ímynd, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangrun og útilokun sem tengist fötluðu fólki. Þannig er samningurinn gott tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum, en það er ekki nóg að hafa orð á blaði, það verður að tryggja öllu fötluðu fólki raunverulega öll þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum. Fullgilding samningsins dugir nefnilega ekki ein og sér.

Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn án fyrirvara 30. mars 2007 ásamt valkvæðum viðauka við hann. Sú undirritun var þess eðlis að íslensk stjórnvöld eru skuldbundin til að efna samninginn en undirritunin felur í sér þessa viljayfirlýsingu. Þann 20. september 2016 var samningur var fullgiltur fyrir Íslands hönd í samræmi við ályktun Alþingis, nr. 61/145, og var það mikilvægt skref. En það er ekki nóg. Því að þó að íslensk stjórnvöld séu með fullgildingu skuldbundin til að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarétti.

Þess vegna er hér mikilvægt að lögfesta samninginn þar sem þjóðréttarsamningur fær ekki lagagildi nema löggjafarvaldið, við hér, grípi til sérstakra aðgerða, eða með öðrum orðum að við veitum samningnum lagagildi.

Það er mikilvægt þar sem samningurinn er jú fyrst og fremst jafnréttissamningur sem tryggir fötluðu fólki stöðu á við aðra. Það er gott að sagt sé að það sé tiltekin skylda ríkisins að sjá til þess að málefni sem varða málaflokkinn verði framkvæmd. Það tel ég meðal mikilvægustu atriða þess sem við fjöllum um í dag.

Í lokin vil ég nefna sérstaklega áherslu á eftirfarandi: Í nefndaráliti velferðarnefndar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árið 2017–2021 kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í umsögnum sem bárust nefndinni var bent á að þýðing Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á íslenska tungu sé afar illa unnin og þar með óásættanleg. Í þýðingunni sé að finna alvarlegar villur sem geti jafnvel valdið misskilningi og ruglingi. Nefndin brýnir fyrir ráðuneytinu að fara þurfi vandlega yfir þýðingu sáttmálans með hliðsjón af þeim athugasemdum sem bárust nefndinni og geri lagfæringar þar sem við á.“

Ég tek undir þessi orð, þar sem ég er einn af flutningsmönnum, með leyfi forseta:

„Að lokum leggja flutningsmenn mjög ríka áherslu á að unnið verði að lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að samningnum í mjög góðu og virku samráði við fatlað fólk, hagsmunahópa þess, sveitarfélög og fræðasamfélagið.“

Ég vona svo sannarlega að þetta mál fái farsæla framgöngu hér á Alþingi Íslendinga.