149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[19:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Loksins er sá gleðidagur kominn að við fjöllum um þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lengi hefur verið barist fyrir þessu af okkur sem höfum lifað í heimi fötlunar. En þetta er bara upphafið. Þetta er fyrsti dagurinn, verið er að mæla fyrir nefndaráliti. Þetta er að skella á, og við verðum að átta okkur á því að við eigum að hlakka til sérstaks dags, þ.e. 13. desember 2020, þegar á að vera búið að lögfesta og koma öllum lögum og reglum, sem þarf að breyta, í lag. Það skiptir rosalega miklu máli vegna þess að við vitum að dómstólar hafa verið að dæma þannig að réttindi fatlaðs fólks, hindranir fyrir fólk í hjólastólum þar sem það hefur krafist þess að gerðar verði úrbætur, því hefur verið hafnað af dómstólum á þeim forsendum að þessi samningur hafi ekki verið lögfestur.

Það eru mörg svona mál sem hafa stoppað og margar hindranir eru í vegi vegna þess að við höfum ekki löggilt samninginn. Þess vegna segi ég: Þetta er gleðidagur og gott að þetta sé komið. En þetta er bara fyrsti áfanginn.

Síðan þurfum við að sjá til þess að öllum lögum verði breytt og búið verði að gera það þannig að við þurfum ekki að fresta því að þetta taki gildi 13. desember 2020. Þá getum við sagt við alla fatlaða: Til hamingju — þegar samningurinn er loksins kominn að fullu í gildi.