149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

tilkynning.

[11:13]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti undrast þetta endurtekna hótunartal. Forseti hefur enga ástæðu til að ætla annað en að liðlangur dagurinn og kvöldið dugi okkur vel í að ræða ítarlega þau tvö mál sem eru hér til fyrri og 1. umr. og eiga að koma til nefndar. Miðað við þau tímamörk sem þingsköpin geyma í umræðum um slík mál eru það orðnar mjög langar umræður áður en næði miðnætti.

Forseti frábiður sér tal um að hann standi í hótunum. Það er eitthvað sem talsmenn minni hlutans hafa búið sér til og er þá annað á bak við sem forseti áttar sig ekki á. Stærstur hluti þingheims gæti fullnýtt ræðurétt sinn í 15. dagskrármálinu áður en að miðnætti gengi í garð. Það er bara þannig, einföld stærðfræði segir manni það. Forseti áttar sig ekki alveg á þessu og bendir á að sá tími sem við eyðum í þetta mál áður en við komumst til að greiða atkvæði um þetta einfalda fyrirbæri gengur á þann tíma sem menn geta rætt dagskrármálin á björtum degi. (Gripið fram í: Akkúrat.)