149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[12:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að gerast svo djarfur að segja að við séum að samþykkja mál sem muni breyta miklu fyrir líðan mjög margra. Þrátt fyrir að hér hafi komið fram í umræðum áðan að þarna væri ríkisstjórnin að stíga ákveðin skref er ekki svo, heldur eru það þingmenn Vinstri grænna sem leggja málið fram og ég er 1. flutningsmaður þess. Þingið er að samþykkja það og fela ríkisstjórninni verkefnið.

Það er skýrt tekið fram í greinargerð með málinu að horfa eigi vel til allrar þeirrar starfsemi sem er til staðar, þar með talið Fjölmenningarseturs þannig að ég verð að játa að ég skil ekki alveg andstöðu þeirra við málið sem bera hagsmuni Fjölmenningarseturs fyrir sig. En látum það vera. Þetta er fagnaðarstund að mínu mati.

Ég vil þakka hv. velferðarnefnd fyrir þetta mál, formanni hennar og framsögumanni málsins, hv. þm. Halldóru Mogensen annars vegar og hins vegar Ólafi Þór Gunnarssyni, og öðrum í nefndinni. Ég þakka góðar undirtektir í ráðuneytinu og hjá hæstv. ráðherra við því hvernig hægt sé að koma þessu máli áfram. Ég ætla að segja að ef atkvæðagreiðslan fer svona um þetta mál er þetta (Forseti hringir.) stór dagur fyrir þá sem sækja Ísland heim og vilja hér búa af einhverjum ástæðum, hverjar sem þær kunna að vera.