149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Ég vildi koma aðeins inn á samráð við sveitarfélögin, eins og áskilið er. Spurt er hvort sveitarfélögin treysti sér til að samþykkja þessa nýju fjármálastefnu og hvort þetta endurmat sé komið það langt á veg að sveitarfélögin hafi allar upplýsingar og nákvæmar upplýsingar þannig að þau geti staðið við þau áform sem eru í fjármálastefnunni.

Í umsögn sveitarfélaganna um gildandi fjármálaáætlun og stefnu kemur fram að lífskjarasamningarnir leggist þungt á sveitarfélögin þar sem stór hluti starfsmanna þeirra þiggur laun samkvæmt lægstu töxtum. Svo má ekki gleyma áformum ríkisstjórnarinnar um að frysta, það má nota það orð, greiðslur úr jöfnunarsjóði, sem hefur haft mikil áhrif á sveitarfélögin og þau hafa mótmælt harðlega.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að útreikningar ráðuneytisins á þessari endurmetnu fjármálastefnu komi ekki til með að speglast í enn þyngri rekstri sveitarfélaganna. Það væri fróðlegt að fá viðhorf hæstv. ráðherra hvað þetta varðar vegna þess að ég held að þetta sé mikið áhyggjuefni, þetta kemur til með að bitna harkalega á sveitarfélögunum og auk þess hefur ríkissjóður ekki staðið við skuldbindingar sínar hvað varðar framlög úr jöfnunarsjóði.

Telur hæstv. ráðherra ekki að þetta geti þyngt enn frekar rekstur sveitarfélaganna?