149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að nefna tvennt sem eru skotheld rök fyrir því að gera breytingu á fjármálastefnunni við þessar aðstæður:

1. Heilbrigð skynsemi.

2. Grunngildi laga um opinber fjármál.

Þeir sem mæla gegn því að við tökum fjármálastefnuna til endurskoðunar við þessar aðstæður eru að segja: Við eigum að halda okkur við afkomumarkmiðið. Þeir þurfa þá að leggja fram tillögur um það hvernig við, þrátt fyrir að verða fyrir skelli á tekjuhliðinni, eigum að skila tæplega 30 milljarða afgangi á næsta ári.

Ætli menn að koma inn í þessa umræðu sem svo miklir formalistar að þeir sjái ekki skóginn fyrir trjánum, taki ekki með sér inn í umræðuna augljós sannindi og heilbrigða skynsemi, eru þeir ekkert að velta því fyrir sér hvað gagnast heimilunum í landinu best við þessar aðstæður eða hvað gagnast fyrirtækjarekstrinum best. Hvað er skynsamlegt og varfærið að gera til lengri tíma fyrir ríkissjóð, fyrir sveitarfélögin? Er það ekki það sem við erum að leggja til? Eða er það það sem formalistinn, hv. þingmaður, leggur einkum upp úr, þ.e. að menn standi við það sem þeir sögðu í desember 2017?

Ég hvet hv. þingmann til að koma aðeins upp úr skurðinum og gera sér grein fyrir því til hvers við erum að þessu öllu hérna. Við erum að þessu til að tryggja stöðugleika í landinu. Til að skapa aðstæður þannig að fólk geti bætt líf sitt. Við erum ekki að þessu til að geta hreykt okkur af því að einhverjar spár frá árinu 2017 vegna 2020 hafi ekki gengið eftir, að við verðum bara að beygja okkur undir það.

Það verður að taka smákorn af einhverri raunveruleikatengingu með inn í umræðuna. Það er auðvitað svarið. Svarið er: Þær ráðstafanir sem var útilokað að við færum í og stangast á við grunngildi laganna er að fara í tugmilljarða niðurskurð, eða, eins og Samfylkingin leggur til, tugmilljarða skattahækkanir.