149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ræðuna. Ráðherra heyrði ekki í mér þegar ég sagði að ég finn fullt af tiltækum ráðum sem gætu útskýrt að fara þyrfti í endurskoðun á fjármálastefnunni. Ég finn þau bara ekki í þessari tillögu, þess vegna var ég að spyrja um hver rök ríkisstjórnarinnar væru fyrir því.

Já, heilbrigð skynsemi og allt þar fram eftir götunum — eftir sem áður liggur það eftir að í mörg ár hefur það verið gagnrýnt að ríkisstjórnin sé sífellt að setja sjálfa sig í þessa spennitreyju sem fjármálaráð kallar. Ef ekki hefði verið fyrir þessa spennitreyju, ef þetta óvissusvigrúm hefði verið til staðar, sem er verið að bæta við núna, þyrftum við ekki, með því í óvissusvigrúmi og þeim tiltæku ráðum sem annars er hægt að nota, að fara enn og aftur með svona lagfæringarmál fyrir Alþingi. Þá væri hægt að bregðast við því með óvissusvigrúmi sem hefur vantað í mörg ár og með tiltækum ráðum samkvæmt lögum um opinber fjármál í staðinn fyrir að nota einhvers konar hentugleika efnahagsuppsveiflu sem (Forseti hringir.) allir eru að vonast eftir að haldi en gerir það síðan ekki, af því að það vita það allir og voru allir búnir að vara við því í mörg ár.