149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra flytur einhvers konar öfugmælavísur, finnst mér, í þessari umræðu um nýja fjármálastefnu. Hér stendur hæstv. fjármálaráðherra og lýsir efnahagsstefnu stjórnvalda sem stórkostlegu afreki. Þá horfir maður á og segir: Staðan er sú að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur gengið fallið um 20%, verðbólga er á uppleið, ekki á niðurleið, og við erum á leiðinni inn í eitt mesta atvinnuleysi og hörðustu lendingu í íslensku efnahagslífi í 30 ár. Því lýsir ríkisstjórnin sem stórkostlegum árangri í hagstjórn sinni. Þetta á kannski meira skylt við uppistand en fróðleik um fjármálastefnu.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig í ósköpunum stendur á því að hér er staðið og reynt að sannfæra okkur um að hvítt sé svart þegar það blasir við öllum að í fyrsta lagi var ekkert hlustað á mjög skýr og ítrekuð aðvörunarorð fjölmargra aðila, ekki bara í þessum sal heldur umsagnaraðila um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar þegar hún kom fram á sínum tíma, sem vöruðu einmitt við þessari stöðu, að það væri allt of bratt farið í útgjaldaaukningu ríkissjóðs og það myndi koma að skuldadögum?

Við lögðum í endurskoðun á lögum um opinber fjármál til að koma í veg fyrir endurtekin hagstjórnarmistök þar sem hefðin var sú að á tímum uppsveiflu jukust ríkisútgjöld að jafnaði um 30–40 milljarða á ári en voru svo dregin saman í niðursveiflu. Og hver er stefna þessarar ríkisstjórnar? Það var stefnt að 40–50 milljarða útgjaldaaukningu á ári á verðlagi dagsins í dag. Það var lærdómurinn af mistökum fortíðar. Hér er staðið og sagt að þetta sé merki um frábæran árangur í efnahagsstjórn.

Það blasir við öllum að þetta er algjör falleinkunn fyrir efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar og hún stendur aumkunarverð í þeim sporum að reyna að réttlæta þau mistök sem þegar hafa verið gerð. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. ráðherra: Mun sú fjármálastefna sem hér er mælt fyrir standast miðað við þær hagspár sem við horfum nú framan í?