149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil draga það fram að atvinnuleysi er að fara upp af mjög skýrum ástæðum. Stór atvinnurekandi fór á hausinn. Það horfir hins vegar til þess að atvinnuleysi fari lækkandi eftir að við erum komin yfir þann hjall. Það er bara rangt hjá hv. þingmanni að hér sé einhver óðaverðbólga, við höfum ekki séð annað eins. Það er rangt. Það er ekki rétt, enda höfum við nýverið séð gerða nýja kjarasamninga sem byggja einmitt á því að við erum í stöðugu umhverfi. Voru ekki vextir að lækka? Ég veit að hv. þingmann langar til að komast út úr krónuumhverfinu inn í evruna en það er ekki hægt að taka hvaða rök sem er með sér inn í þá umræðu.

Staðan er sú að við höfum verið að nýta undanfarin ár til að byggja undir framtíðina og styrkja okkur og við erum sterkari á nær öllum sviðum. Má ég lesa hér upp úr Peningamálum Seðlabankans frá því í maí, með leyfi forseta:

„Í aðdraganda fjármálakreppunnar var sparnaður íslenskra heimila tiltölulega lítill og þjóðhagslegur sparnaður, þ.e. heildarsparnaður heimila, fyrirtækja og hins opinbera, var orðinn sögulega lágur. Staðan nú er önnur þar sem heimilin og þjóðarbúið í heild hafa smám saman aukið sparnað sinn þrátt fyrir kröftugan útgjaldavöxt undanfarinna ára. Þetta, ásamt stórbættri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja …“ — breytir stöðunni.

Hv. þingmaður segir: Við höfum farið allt of glannalega, við höfum ekki verið með raunsæjar áætlanir. Í þeirri ríkisstjórn sem ég og hv. þingmaður sátum saman í gilti fjármálastefna. Samkvæmt henni átti afgangur á ríkisfjármálum á næsta ári að vera 1,4% af landsframleiðslu, sem sagt meira en samkvæmt stefnunni sem ég er að leggja til að við breytum. En það kallar hv. þingmaður náttúrlega ekki bjartsýni. Það var ekkert nema raunsæi, það var bara raunsæi. Þá var hv. þingmaður að styðja ríkisstjórn sem sá þetta allt fyrir, hvernig þetta yrði á árinu 2020 og á árunum til 2030 vænti ég.

Aðalatriðið er þetta. Þegar spurt er: Hvernig hefur gengið að bæta lífskjör heimilanna? Hvernig gengur að reka fyrirtæki á Íslandi? er svarið mjög augljóst. Kaupmáttur hefur vaxið á hverju ári hjá öllum tekjutíundum, (Forseti hringir.) fyrirtæki njóta þess nú að hægt er að lækka vexti og þrátt fyrir allt þá er þetta ekki nema tímabundið áfall sem við erum að ganga í gegnum.