149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum einmitt að gera það með óvissusvigrúminu sem er lagt inn í stefnuna í fyrsta sinn. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er í raun og veru að leggja til að við gerum umfram það. Við gætum auðvitað komið á fót hér Hagspá Alþingis, Hagstofu Alþingis og sagt: Við treystum ekki þessum hagfræðingum. Við treystum ekki Hagstofunni, við treystum ekki öðrum greiningaraðilum, hvorki Seðlabankanum né öðrum. Hvað er eiginlega verið að leggja til? Að við notum eitthvað annað en opinberar hagspár, sjálfstæða þriðju aðila, til að leggja grunn að áætlunum okkar fram í tímann? Eða eigum við að taka bara svartsýnustu röddina og segja: Það er við hana sem við þurfum að miða?

Ég þreytist ekki á að segja að það er auðvitað óheppilegt að þurfa að treysta á óöruggar hagspár inni í framtíðinni en það er eina leiðin fyrir okkur til að gera áætlanir að byggja á því sem sjálfstæðir þriðju aðilar hafa sagt. Ef það hins vegar bregst þá höfum við í fyrsta lagi óvissusvigrúm úr að spila og í öðru lagi höfum við alltaf getuna(Forseti hringir.) til að koma saman og segja: Við þurfum að bregðast við. Það er ekkert hræðilegt. Það sem skiptir öllu á endanum er að við látum gott af okkur leiða.