149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir prýðisræðu og get tekið undir margt sem snýr að þeim vangaveltum um sviðsmyndir og fráviksspár. Við höfum rætt þetta mikið í hv. fjárlaganefnd og ég veit að í samtölum okkar við fjármálaráðuneytið er þetta eitthvað sem allir hafa hug á að bæta til framtíðar í því regluverki.

Hv. þingmaður nefndi hins vegar tvennt sem ég ætla að staldra við. Annars vegar sagði hv. þingmaður, hann leiðréttir mig ef það er ekki rétt, að stefna og áætlun hefði ekki verið nægilega varfærin og hins vegar að hæstv. ríkisstjórn væri ekki nægilega meðvituð um stöðu ferðaþjónustunnar. Ég ætla fyrst að víkja að þættinum varðandi varfærnina. Er ekki einmitt verið að virða grunngildi laga um opinber fjármál með þeim aðgerðum sem við erum að horfa til hér? Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir það í framsögu og síðar í andsvörum. Það er full ástæða til þess þegar forsendur eru brostnar, eins og hefur komið fram, að endurskoða stefnuna með tilliti til grunngildanna og ekki síst til varfærnigildis. Ég ætla að spyrja hv. þingmann um það. Í hinn stað: Hvað er skynsamlegt að gera við slíkar aðstæður? Það er einmitt verið að stefna að því í þessari breyttu endurskoðuðu stefnu að skila ríkissjóði í jafnvægi. Það myndi ég telja afar varfærið miðað við (Forseti hringir.) stöðuna og hjaðnandi hagvöxt. Ég spyr hv. þingmann hvort það sé ekki einmitt það sem verið er að gera.