149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um það en kannski er raunvöxtur útgjalda árið 2017, á toppi hagsveiflu 2016, eitthvað sem við gætum skoðað í því tilliti. Það var gert ráð fyrir meiri afgangi. Nú erum við hins vegar að horfa framan í þær aðstæður að það er hjaðnandi hagvöxtur og spáð samdrætti. Þá er auðvitað mikilvægt, ef við horfum bara á grunngildið um varfærni, að aðhaldsstigið verði ekki meira en svo — það má alls ekki auka á samdráttinn eða minnka hagvöxtinn enn meira umfram það sem við köllum aðlögun eða sjálfvirka sveiflujöfnun skatta- og bótakerfa. Ég veit og trúi ekki öðru en að hv. þingmaður sé mér sammála um það þegar við horfum á þetta sjónarmið, þetta grunngildi sem er varfærni.