149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það má alls ekki misskilja málflutning minn. Ég tel að við skattleggjum okkur ekki upp úr þeim samdrætti sem við upplifum hér, alveg þvert á móti. Ég er kannski að benda á glötuð tækifæri, að við hefðum átt að innleiða talsvert skynsamlegra og sanngjarnara skattkerfi þegar það var hægt, þegar við vorum á hátindi uppsveiflunnar. En á það var ekki hlustað og núna þarf ríkissjóður að sjálfsögðu á tekjum að halda. Peningar vaxa ekki á trjánum. Þeir vaxa hjá fólkinu og fyrirtækjum í landinu. Við þurfum með einhverjum hætti að afla þeirra tekna sem þeir innviðir krefjast sem við erum flest sammála um.

Ég er sammála hv. þingmanni um bankaskattinn. Mér fannst það mjög sérkennileg forgangsröðun að lækka bankaskattinn um 8 milljarða á einu ári. Það er einungis verið að fresta lækkun hans um eitt ár og ég held að það dugi ekki. Ríkisstjórnin ætlaði að lækka bankaskattinn um 18 milljarða kr. á fjórum árum. Það er gríðarlega há upphæð á sama tíma og velferðarkerfið, menntakerfið fær talsvert högg vegna samdráttarins.