149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og er honum alveg sammála um að fyrirhuguð lækkun bankaskattsins er óskynsamleg. Annað sem er óskynsamlegt við þá fyrirhuguðu lækkun sem nú á vonandi að fresta um eitt ár — í fyrsta lagi tel ég að það ætti að fresta henni um a.m.k. þrjú ár miðað við það að hér sé horft fram á halla á ríkissjóði næstu árin — er að við höfum enga tryggingu fyrir því að neytendur í landinu komi til með að njóta góðs af lækkun bankaskattsins. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt í ræðu að hann vonist til þess að við sjáum þess merki hvað varðar gjöld á ýmsa þjónustu bankanna og hugsanlega jafnvel bara vexti. Við höfum enga tryggingu fyrir því. Það er vaninn, held ég, að þegar þau gjöld lækka fari það bara (Forseti hringir.) í arðgreiðslur eigenda bankanna.

Ég er sammála hv. þingmanni að lækkun bankaskattsins er (Forseti hringir.) óskynsamleg ráðstöfun til lengri tíma litið, sérstaklega í því árferði sem er fram undan.