149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er vissulega áhugavert hvernig hann hefur hugsað lög um opinber fjármál hvað þetta varðar. Við höfum náttúrlega verið að læra inn á þessi lög og nú í fyrsta skipti stöndum við frammi fyrir því, einungis 14 mánuðum eftir að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar var samþykkt, að það þarf að endurskoða hana. Þannig að jú, það er komin upp svolítið áhugaverð staða, ég skal taka undir það með hv. þingmanni. Auk þess er það náttúrlega rétt hjá hv. þingmanni að maður verður kannski ekki varfærinn eftir á, eftir að skaðinn er skeður. Að því leytinu til er þetta mjög áhugavert umræðuefni.

Ég held að kjarni málsins sé sá að þegar stefnan var unnin hafi menn ekki hlustað nægilega vel á þá sem gagnrýndu það sem lagt var upp með. Við höfum Viðskiptaráð, Samtök iðnaðarins og fjármálaráð sem öll vöruðu við því að þarna væru menn allt of bjartsýnir í sinni vinnu og síðan kemur það á daginn. Ég lít svo á að þar hafi menn ekki verið nógu varfærnir. Það hlýtur að vera niðurstaðan. Nú erum við komin að því að það gekk eftir og ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að endurskoða þessa stefnu. Án þess að ég geti farið djúpt í pælingar hv. þingmanns get ég verið sammála honum um að við erum komin í svolítið sérkennilega stöðu. En vonandi náum við að finna út úr því hvernig lögin eiga í raun og veru að virka þegar aðstæður eins og þessar koma upp.