149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kemur hv. þingmaður inn á áhugamál mitt varðandi lög um opinber fjármál, að læra inn á lögin eða læra hvernig þau virka. Þau eru nú einu sinni í gildi og við eigum að fara eftir þeim óháð því hversu vel við kunnum á þau. Að sjálfsögðu eigum við að kunna á lögin, þau eru í gildi. Það væri undarlegt ef fólk gæti hist, ef um væri að ræða önnur lög, og sagt: Nei, ég kann ekki alveg á lögin þannig að ég fer ekki alveg eftir þeim núna eða ég er að innleiða þau þannig að ég ætla ekki að fara eftir þeim alveg strax. Ég veit að ég fór yfir á rauðu ljósi en ég er enn að innleiða það hjá mér að fara eftir umferðarreglunum. Ég sleppi því bara núna en geri það kannski næst.

Fyrri fjármálastefna var lögð fram til að sýna fram á sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. En við sjáum í þessari endurskoðun — sem er ekki endurskoðun heldur breyting, mjög skrýtið — staðfestingu á því að fyrri fjármálastefna var ekki sjálfbær, varfærin, stöðug og hún einkenndist ekki af festu og gagnsæi. Það þarf nýja til þess að sýna einmitt varfærni og öll þessi grunngildi.