149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var gagnrýndur úr þessum stóli í fyrra fyrir að vera of svartsýnn. Nú er ég gagnrýndur sömuleiðis, en ég segi að kannski hefði betur verið hlustað á okkur sem vorum með þessi varnaðarorð í fyrra. Hv. stjórnarþingmenn þurfa ekkert að taka mark á okkur í stjórnarandstöðu. Hlustið bara á hagsmunaaðilana, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, verkalýðshreyfinguna — og fjármálaráð sem hæstv. ráðherra skipar meira að segja sjálfur. Þeir aðilar voru allir á svipuðum nótum. Þau orð bárust frá hagsmunaaðilum að stefnan væri ógn við stöðugleikann, væri óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug. Þetta eru allt orð sem koma úr umsögnum hagsmunaaðila um núgildandi stefnu. Ég hef svo sannarlega ekki verið feiminn við að benda á leiðir til að bæta úr. Ég hef einmitt verið ófeiminn við að tala um ákveðnar skattbreytingar og verið skammaður fyrir það af hv. þingmanni að boða ekkert nema skattahækkanir. En ég er ófeiminn við að fara yfir þær hugsanlegu tekjuleiðir sem ríkið (Forseti hringir.) ætti svo sannarlega að skoða, hvort sem er í þenslu eða samdrætti.