149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:45]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo að ég sé algerlega skýr ætlar Samfylkingin ekki að hækka skatta á almenning í landinu, hún ætlar ekki að gera það. Hv. þingmaður virðist vera haldinn þeirri villuhugmynd að peningar vaxi einfaldlega á trjám. Ef við ætlum að fjárfesta í loforðum, okkar og ykkar, þurfum við skatttekjur. Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið sá flokkur sem var með hæsta loforðið í aðdraganda síðustu kosninga, um 100 milljarða. Ég sá þá tölu hvergi í kosningastefnuskrá neins flokks, hvergi nema í kosningaloforðum Sjálfstæðismanna, það er það sem þeir ætluðu að setja í opinbera innviðauppbyggingu. Hvaðan áttu þeir 100 milljarðar að koma? Við höfum ítrekað bent á að það er fullkomlega óeðlilegt að lækka veiðileyfagjald um 3 milljarða og hafa það svipað hátt og tóbaksgjaldið. Við höfum ítrekað spurt af hverju ekki megi skoða auðlegðarskatt á sama tíma og við höfum vaxandi eignaójöfnuð. Af hverju megum við ekki ræða það? Af hverju þarf fjármagnstekjuskattur að vera lægstur á Íslandi (Forseti hringir.) af öllum Norðurlöndunum? Af hverju þarf hann að vera lægstur hér? Þetta eru tekjuúrræði sem við eigum að vera ófeimin við að ræða og ég hef svo sannarlega verið það, hæstv. forseti.