149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þurfum við að sýna festu, það er einmitt það sem við drógum hér upp í fyrra og erum að gera núna. Sú niðursveifla sem við upplifum núna á ekki að koma mjög á óvart. Fjölmargir aðilar vöruðu við henni. Við mörg í stjórnarandstöðunni og fleiri bentu einmitt á að óvarlegt væri að gera ráð fyrir 14 ára samfelldu hagvaxtarskeið. Við bentum á að blikur væru á lofti. Nú er þessi samdráttur orðinn sem við töluðum um í fyrra og því er ekki hægt að segja að hér sé dæmi um festu og ábyrgt vinnulag. Við getum sagt að við höfum sagt ykkur þetta í fyrra. Þið hlustuðuð bara ekki á okkur og það eru mikil vonbrigði.

Auðvitað ber að uppfæra áætlun og annað slíkt en mér finnst menn oft rugla saman spám og áætlunum. Hagspárnar sem allt byggist hér á eru einfaldlega of bjartsýnar og óraunsæjar og byggjast á óskhyggju. Það er allt í lagi að hafa áætlun sem gerir ráð fyrir mjúkri lendingu eða snertilendingu en við þurfum að hafa raunsæjar spár. Það er ekki raunsætt að gera ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar haggist ekki á næstu fimm árum. (Forseti hringir.) Það er ekki raunsætt að gera ráð fyrir að olíuverð breytist ekki neitt, að verðbólga hækki ekki o.s.frv.