149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu. Hv. þingmaður hefur stundum verið gagnrýndur fyrir að vera formalisti. Hann er reyndar uppáhaldsformalistinn minn í lögum um opinber fjármál og kannski er rík ástæða til þess að þingið allt sé meiri formalisti í þessu. Lög um opinber fjármál voru einmitt sett til þess að skapa festu og fyrirsjáanleika í ríkisfjármálunum og gengið var út frá því við gerð þeirra að eftir þeim yrði síðan unnið. Það er ekki raunin eins og við sjáum svo skýrt í dag.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í eitt af grunngildunum, sem er varfærni. Ég hef verið mjög hugsi yfir staðhæfingum stjórnarmeirihlutans frá upphafi umræðunnar og í raun frá fyrstu fjármálastefnu, ég hef verið hugsi yfir einhvers konar nauðhyggju um að ríkisstjórnin verði einfaldlega í fjármálastefnu og fjármálaáætlun að taka mið af gildandi hagspám hverju sinni og geti hvergi frá þeim hvikað. Þá kemur einmitt að grundvallarspurningunni um varfærni í bæði stefnu og áætlun. Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því að það hljóti að vera mikilvægt — einmitt þegar hættumerki eru á lofti í efnahagslífinu, þegar fjölmargir hagsmunaaðilar vara við því að efnahagslegar forsendur séu í besta falli mjög bjartsýnar, jafnvel algerlega óraunhæfar — að gæta ýtrustu varfærni en ekki tefla á tæpasta vað eins og augljóslega var gert í þessu tilviki? Væri ekki eðlilegra, í ljósi þess að við viljum líka hafa ákveðinn sveigjanleika í ríkisfjármálunum til að takast á við erfiðari tíma, að stjórnin sýni einfaldlega meiri fyrirhyggju og skilji eftir meira svigrúm á tímum efnahagslegs uppgangs?