149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Að mörgu leyti finnst mér áhugavert hvernig hv. þingmaður hefur nálgast varfærnishugtakið og grunngildin því að þau skipta verulegu máli í þessum efnum. Auk þess er ég sammála hv. þingmanni um að það þarf að vera nokkuð skýrt hvenær stefnan er endurskoðuð. Það liggja í raun ekki fyrir neinar leiðbeiningar um það að öðru leyti en því sem segir í lögunum, orð eins og þjóðhagsvarúð. Það þyrfti að vera skilgreining á því hve viðsnúningurinn þyrfti að vera mikill þegar kemur að landsframleiðslu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að betra hefði verið og í raun nauðsynlegt að við hefðum haft umsögn fjármálaráðs áður en við færum í þessa umræðu. Það er náttúrlega fjármálaráð sem segir til um það hvort stjórnvöld séu á réttri leið með þetta mál. Við höfum ekkert til að styðjast við hvað þetta varðar. Hæstv. ráðherra segir að það hafi verið skynsamlegt að endurskoða stefnuna. Við þurfum að hafa eitthvað meira haldbært í höndunum en það og þess vegna lagði ég áherslu á það í ræðu minni að þetta þyrfti að liggja fyrir, að sviðsmyndir og greiningar þyrftu að liggja fyrir þannig að Alþingi hefði meiri gögn og upplýsingar í höndunum, og þar á meðal umsögn fjármálaráðs, til að geta farið í vandaða umræðu um þetta mál. Ég bið um álit hv. þingmanns á þessu.