149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við komum kannski að því aftur að við erum með tiltölulega nýleg lög sem við erum að læra inn á. Engu að síður eru þau í gildi, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Við stöndum kannski frammi fyrir því að verið er að endurskoða stefnuna í fyrsta sinn, stefnu sem er reyndar tiltölulega nýleg. Í því samhengi hefði maður talið æskilegra að hafa einhver gögn þó að vissulega sé rétt að við séum að fara í umsagnarferli o.s.frv., með því að málið fer til nefndar og er tekið fyrir þar. Engu að síður hefði ég talið að það þyrfti að liggja skýrar fyrir hvenær endurskoða eigi stefnuna. Hvað ef fjármálaráð kemst að því að það hafi kannski verið óþarfi að endurskoða stefnuna? Hvar stöndum við þá? Ég velti þessu upp. Það er kannski (Forseti hringir.) harla ólíklegt að svo verði en það er allt í lagi að skoða þessar hliðar á málinu enda verðum við, að mínu mati, að hafa sérfræðileg gögn til að geta fylgt þessu eftir.