149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að hafa ákveðna samúð með því að stjórnarliðar sitji ekki í bunkum inni í sal og hlusti á töku tvö um fjármálastefnu. En hér var samkomulag um að hæstv. fjármálaráðherra yrði í salnum og hlýddi á umræður og tæki þátt í þeim að einhverju marki. Ég verð að leita liðsinnis hjá hæstv. forseta um að sjá til þess að það samkomulag sé virt.

Svo verð ég að fá að nota tækifærið, úr því að ég stend hér, og lýsa því yfir að ég sakna verulega viðveru félaga úr Vinstri grænum í salnum, ekki síst þeirra sem mikið hafa talað um að úr þessum ræðustól eigi menn samtal við þjóðina, svo að ég vitni í orð fyrrverandi ræðukóngs. Það væri áhugavert að vita af hverju þeir hafa minni en engan áhuga á að taka þátt í þessari annarri tilraun til þess að koma fjármálastefnu ráðherra frá. Þeir koma þarna í dyrnar og mér þætti virkilega gaman að fá þá til að taka þátt í umræðunni. En hæstv. fjármálaráðherra viljum við gjarnan fá inn í salinn eins og um var samið.