149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:58]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í seinna andsvari langar mig að spyrja um svokallaða lífskjarasamninga. Nú hefur hv. þingmaður mikla reynslu af því að taka þátt í samningum á vinnumarkaði og ég velti fyrir mér skoðun hans á lífskjarasamningunum. Það vakti athygli mína þegar hinir svokölluðu lífskjarasamningar voru kynntir að þeir virtust ekki hafa nein áhrif á fjármálaáætlun sem hafði verið kynnt mánuði á undan þeim. Ég velti fyrir mér innihaldi þessara samninga í því ljósi. Sömuleiðis mat Hagstofan það þannig að lífskjarasamningarnir myndu ekki hafa nein áhrif á verðlag. Það væri fróðlegt í ljósi reynslu hv. þingmanns að fá mat hans á innihaldi samninganna.

Ég vil ítreka að þetta nafn, lífskjarasamningar, er allt of stórt í ljósi þess að það eru stórir hópar skildir eftir fyrir utan samningana. Nægir þar að nefna öryrkja, aldraða og námsmenn og opinberir starfsmenn eru í rauninni líka að hluta til skildir eftir í ljósi þess að einungis er gert ráð fyrir að launahækkun þeirra verði 0,5% umfram verðlagshækkun, sem verður sérkennilegt.