149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það segir sig sjálft að þeir sem þurfa mest á aðstoð að halda eru einmitt sá hópur, þeir sem eru mest fatlaðir og styðjast við NPA og annað. Þess vegna er eiginlega sorglegt að það skuli hafa verið búið til þannig kerfi að verið sé að festa viðkomandi einstaklinga í fátæktargildru. Það er verið að búa til þannig kerfi. Þetta er svo ljótt. Það er verið að hækka t.d. sérstöku uppbótina, hækka aldurstengdu uppbótina og síðan á núna að setja inn fjármagn til að draga úr skerðingum. En það dugir ekki. Það hentar ekki vegna þess að kostnaðurinn hjá þeim einstaklingum við fara út að vinna og reyna að bjarga sér er mikill. Það þarf hreinlega krónu á móti krónu skerðingu burt. Ég skil ekki þessa þrjósku. Þetta var hægt gagnvart eldri borgurum þessa lands. Það virðist hafa virkað fínt og enginn kvartar undan því að farið hafi verið í það. Hvers vegna í ósköpunum er þetta þá ekki einfalt mál og hægt að gera það núna strax gagnvart öryrkjum? Af hverju að vera að krafsa í þetta með einum þriðja, spörkum aðeins minna fjárhagslega í viðkomandi? Þú ert samt að sparka í hann fjárhagslega og þá hættir þú því algerlega, sem er auðvitað það eina rétta. En því miður, þessi fjárhagsáætlun, og þær áætlanir sem ríkisstjórnin er með, byggir á því að halda áfram að níðast á þeim sem síst skyldi, fólki sem hefur ekki nema 212.000 kr. á mánuði og á að standa undir húsaleigu og öðru. Það segir sig sjálft að húsaleigan er vel yfir 50 og upp undir 100% af þessum launum. Þetta er ofbeldi.