149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók þetta einmitt saman eftir einhvern fundinn í fjárlaganefnd og bað upplýsingasvið Alþingis um að ná saman öllum tölum vegna hækkana sem fara eftir 69. gr. laga um almannatryggingar, hver hækkunin hefði átt að vera miðað við launaþróun og miðað við vísitöluþróun og hver hún var í raun og veru. Eftir að maður var búinn að púsla því saman, sjá hvenær hækkunin var lægri og hvað hún hefði átt að vera, þá ætti lífeyrir, miðað við uppsöfnun á síðustu 20 árum, að vera 50% hærri en hann er núna, bara með því að fara eftir lögum. En það er hentugleikatúlkun á þessu, miðað við spár. Spárnar eru yfirleitt hafðar í lægri kantinum miðað við það sem hefur síðan raungerst. Þetta ætti að koma fram í langtímaspám og langtímaskuldbindingum. Þá er sýnt hvernig þróunin er til næstu ára og hver kostnaðurinn er af því og þá getur maður borið það saman við það sem gerist í raun og veru. Þetta vantar.