149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvar sjáum við þess merki að verið sé að reka ranga stefnu? Merkin eru að við stöndum hér og erum að breyta stefnunni sem hæstv. fjármálaráðherra barði í gegn fyrir 14 mánuðum, stefnu sem átti að duga til 48 mánaða en hann gat ekki staðið við hana. Það eru fyrstu merkin. Við skulum svo taka fjármálaáætlun og umræðuna um hana þegar sú áætlun birtist loks inni á þingi og tala um þau mál. Nú erum við að tala um fjármálastefnuna. Merki um að stefnan sé röng er að ríkisstjórnin sjálf getur ekki staðið við hana.

Hæstv. ráðherra: Það er hægt að sýna aðhald með tvennum hætti. Það er hægt að skera niður, sem er auðvitað fyrsta vopnið sem ráðherra grípur yfirleitt til í ræðustól þegar eitthvað harðnar á dalnum. En það er líka hægt að afla tekna. Þó að það séu ekki aðstæður nú til að leggja álögur á t.d. ferðaþjónustu þá hefði það ábyggilega skapað meira jafnvægi, sjálfbærari og betri vöxt í greininni og gert það að verkum að hún hefði ekki ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar og gæti kannski búið sér til einhver skynsamlegri langtímaplön, ef hæstv. ráðherra hefði dottið í hug að styðja slík áform þá. Þær aðstæður eru ekki núna. Samfylkingin áttar sig vel á því að á venjulegt fólk, á venjuleg fyrirtæki, verða ekki lagðir hærri skatta núna. Það þýðir þó ekki að það séu ekki víða sóknarfæri til þess í rauninni og réttlætismál að taka af ofsagróða. Það er líka aðhald, hæstv. ráðherra.