149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Bara þannig að það sé á hreinu er ég að segja að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að endurskoða fjármálastefnu. En það verður þá að gera það á skynsamlegum og réttum forsendum. Ég tek undir með hv. þingmanni, forsendur endurskoðunar núna lágu allar ljósar fyrir fyrir 14 mánuðum síðan. Hinn bitri sannleikur er sá að við erum í vandræðum með fjármálastefnuna af því að ríkisstjórnin þurfti að uppfylla galin útgjaldaloforð allra stjórnarflokkanna og ekki síst þurftu þau að fara í þessa massífu útgjaldaaukningu á tímum uppsveiflu í staðinn fyrir að reyna að gera þetta skynsamlegar, m.a. til að halda Vinstri grænum rólegum innan ríkisstjórnar. Það var nógu erfitt fyrir Vinstri græn að selja það að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Það þurfti að fara í útgjaldaaukninguna strax og það hefur haft alvarlegar afleiðingar, að fara í útgjaldaaukningu meðan uppsveiflan var á fullu svingi. Þess vegna stöndum við frammi fyrir endurskoðun á fjármálastefnunni, eiginlega ekki út af neinu öðru. Það er hinn pólitíski veruleiki. Þess vegna segi ég: (Forseti hringir.) Þessi endurskoðun fjármálastefnu, við skulum bara koma hreint fram, (Forseti hringir.) er ekki út af þessum forsendubresti eingöngu heldur út af því að ríkisstjórnin fór ranga leið (Forseti hringir.) á hátindi uppsveiflunnar.