149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég missti af blábyrjuninni þannig að þar gæti eitthvað hafa komið fram sem gæti skýrt hluta af því sem mig langar að koma inn á.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að áherslur Miðflokksins annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar í skattamálum eru heldur ólíkar en í samhengi við umræðu um tekjuöflun horfum við fram á augljóslega heldur þrengri stöðu næstu misserin en við höfum upplifað undanfarin ár og því langar mig að heyra sjónarmið hv. þingmanns til þess hvort hann sjái forsendur einhvers staðar í kerfinu til að lækka skatta núna. Þá er ég ekki að tala um notendagjöld eða eitthvað þess háttar, sem er auðvitað eilífðarverkefni að horfa til, heldur bara stærri tekjustofnana. Sér hv. þingmaður einhvers staðar svigrúm þar til þess að ýta undir innspýtingu eða færa súrefni inn í kerfið?