149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég óttast að við séum í þeirri stöðu að okkur nægi ekki að færa súrefni inn í kerfið. Ég held að við þurfum einfaldlega að tryggja það að fólkið sem hefur það verst í samfélaginu og naut ekki uppgangsins hafi bara súrefni yfir höfuð ef það fer að harðna á dalnum. Samfylkingin er ekki háskattaflokkur. Við höfum margoft sýnt fram á hvernig við lækkum skatta. Við lækkum annars vegar skatta á almenning og þá sem eru með lágar tekjur en við sækjum skatta til þeirra sem meira hafa á milli handanna vegna þess að við viðurkennum og lítum á skattkerfið ekki eingöngu sem tekjuöflunartæki heldur ekki síður sem tekjujöfnunartæki. Ég gæti lesið hér upp í töluvert langan tíma hvað skattalækkunarflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert á undanförnum árum; hækkað þjónustugjöld, útvarpsgjald, tóbaksgjald, áfengisgjald, bensíngjald, kolefnisgjald, kílómetragjald, bifreiðagjald o.s.frv. Það sem Samfylkingin vill gera er að lækka skatta á þá sem lægst launin hafa og verst hafa það en sækja tekjur til þeirra sem hafa, svo ég noti bara frekar hversdagslegt mál, skítnóg af peningum.

Þetta getum við gert með ýmsu móti. Við getum átt við persónuafsláttinn, við getum lagt á þriggja þrepa skattkerfi sem er ekki eins og það sem nú er boðið upp á heldur boðið upp á hærra þrep. Við getum bætt aftur í vaxtabætur og barnabætur. En fyrst hv. þingmaður spyr um konkret skattalækkanir verða þær a.m.k. að miða að þeim sem hafa það ekki nógu gott í samfélaginu í dag.