149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:29]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega ýmislegt sem mætti skoða. Eitt er hreinlega að sníða sér ekki það þröngan stakk að hann rifni bara utan af okkur við fyrsta tilefni. Að setja ætlaðan afgang sem þetta hátt hlutfall af vergri landsframleiðslu var svolítið óábyrgt vegna þess að það var alveg vitað að ekki yrði hægt að viðhalda því til lengdar. Það er alltaf ágætt að gefa sér aðeins meira svigrúm.

Annað sem ég nefndi í ræðunni er að við fáum þjóðhagsspár hvað eftir annað án þess að við fáum neitt mat á því hversu röng síðasta þjóðhagsspá var. Þjóðhagsspár verða alltaf rangar, það er bara ekki hægt að spá fyrir víst um framtíðina. Ef fólk á að hafa rangt fyrir sér er gott að hafa rangt fyrir sér á gagnlegan hátt. Það gefur augaleið að ef við höfum einhvers konar mat á því hversu mikil frávik voru síðast er hægt að fara að reikna með frávikinu og aðlaga sig að því með einhverju móti, jafnvel finna orsakir frávikanna og batna þá alltaf smám saman. Þetta myndi auka á fyrirsjáanleika.

Síðan er hitt, að í hagkerfinu okkar eru strúktúrslegnir veikleikar gegnumgangandi. Grunnstoðir hagkerfisins eru ótrúlega fáir atvinnuvegir. Þeir eru ótrúlega mikið samtengdir, þ.e. þjónustuveiturnar eru í kringum það og þess háttar. Við þurfum að auka fjölbreytni eða búa til meira höggþol vegna þess að eins og kerfið er í dag skilar minni háttar högg á hagkerfið mjög miklum höggbylgjum inn í ríkisreksturinn. Það þarf að hugsa svolítið um reglur hagkerfisins sem heild til þess að auðveldara og vænlegra sé að reka fyrirtæki hérna og auðveldara að lifa hérna. Þá verður ríkisrekstrinum líka stöðugri fyrir vikið.