149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði nýlega sögu þar sem sagt var frá því að fyrirtæki ætlaði að fara í banka og fá lán til þess að vera í einhverjum rekstri og allt í góðu með það, nema að í bankanum þurfti viðkomandi að velta fyrir sér hvað skyldi gera í gjaldeyrismálum á landinu næstu árin og velta fyrir sér öllum þeim þáttum sem hafa áhrif á gengið.

Þegar ég les þessa tillögu eða svona tillögur almennt þegar kemur að fjármálum á þingi, velti ég fyrir mér hinu sama. Það er alltaf krónan sem einhvern veginn er fíllinn í herberginu og gerir það að verkum að ég á afskaplega bágt með að trúa að það sé yfir höfuð hægt að gera stefnur af þeirri nákvæmni sem við ætlumst til þegar við setjum þær. Við vitum að þessi óstöðugleiki er þarna. En það sem er líka svo vont við krónuna — gengi evru er bara einn af mörgum þáttum í öllum þessum mælingum en það hefur samt sem áður svo ofboðslega mikil keðjuverkandi áhrif inn í hagkerfið upp á (Forseti hringir.) rekstrarumhverfi fyrirtækja, húsnæðislán, matarverð og hvaðeina. Mér finnst þetta alltaf vera (Forseti hringir.) einhvern veginn það sem gerir svo ómögulegt að bera eitthvert raunverulegt (Forseti hringir.) traust til svona stefna meðan þetta er svona.