149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp til að þakka fyrir styrka stjórn á þingfundum í dag. Í upphafi dags var lýst miklum áhyggjum af því að dagurinn myndi ekki endast til að ræða þetta mál og af þeim ástæðum var lýst miklum áhyggjum af því að við þyrftum að vera hér inn í nóttina, en nú virðist mér sem það sé að renna upp fyrir stjórnarandstæðingum að tíminn er að renna út. Seinni ræðan er komin á dagskrá og þá er stutt í að umræðunni ljúki. Þá verður að taka til einhvers bragðs eins og að fara að ræða um fundarstjórn forseta og taka hver undir með öðrum um að menn sakni stjórnarliða. Menn geta auðvitað þvælt í þessu í einhverja klukkutíma og haldið að það auki veg, vanda og virðingu þingsins en ég leyfi mér að efast um það. Er málið ekki bara að stjórnarandstaðan er orðin uppiskroppa með rök til að tala gegn málinu og vill fara að tala um eitthvað allt annað eins og það hvort fundarstjóri standi sig?