149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það mætti halda að hv. þingmaður héldi að hér hefði verið blóðugur niðurskurður þegar búið er að stórauka framlög, bæði til innviða en ekki síst til að reka hér sameiginlegt heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Við erum að hefja stórkostlega sókn í samgöngumálum þannig að það er verið að búa í haginn, hv. þingmaður.

Þegar kemur að því eins og flokksfélagar — og hv. þingmaður er einnig í þeim hópi — tala hér um að veikja alltaf tekjustofna, að skattar hefðu verið lækkaðir o.s.frv., hv. þingmaður var fjármálaráðherra og boðaði sem fjármálaráðherra að leggja t.d. niður auðlegðarskattinn, enda væri það vondur skattur og hann væri tímabundinn. Þetta kemur fram í viðtali við Viðskiptablaðið 25. ágúst 2012. Þar boðar hv. þingmaður að auðlegðarskatturinn sé tímabundinn og að hann skuli niður falla. Ekki rétt, hv. þingmaður?